Tvær æfingar/kynningar hafa verið haldnar í ungmennastarfi og var áhugi og aðsókn langt umfram væntingar. Á þriðja tug barna og ungmenna mættu og æfðu á laser æfingabyssur og loftbyssur. Fekk félagið lánaðar byssur frá Skotíþróttafélagi Kópavogs til þess að koma þessi af stað.
Stjórnin sótti um styrk til allra sveitarfélagana í Rangárvallarsýslu fyrir samtals 2.500.000 en það var útreiknaður stofnkostnaður til að koma upp lágmarksbúnaði, ásamt áæltaðri húsaleigu uppá 720.000. Sveitarfélögin tóku mjög vel í þetta og var mikill áhugi. Búið er að taka þetta fyrir hjá Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra og eru bæði sveitafélögin tilbúin að leggja til húsnæði undir starfið sem er mjög góðar fréttir. Rangárþing ytra styrkti svo starfið um 400.000 og Rangárþing eystra um 500.000. Ásahreppur á eftir að taka umsókn félagsins fyrir. Einnig hefur félagið fengið styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum fyrir þessu starfi uppá rúmlega 300.000. Þetta teygir sig langt upp í stofnkostnað en við reiknuðum með að þurfa um 1.500.000 - 1.800.000 bara í tæki og búnað fyrir starfið.
Við höfum þegar pantað tvo laser riffla, og erum að undirbúna kaup á 4 laser byssum til viðbótar. Einnig erum við að kaupa loftskammbyssu en loftrifflar þurfa að bíða um sinn.
Hvað aðstöðu varðar þá höfum við komið upp loftsal í Laugalandsskóla í Holtum sem nýtist í ungmennastarfið (15-20) ára og höfum verið með ungliðana í íþróttasalnum með laser byssurnar.
Í sumar stendur til að hafa unglingasnámskeið í haglagreinum og einnig í riffillgreinum en reiknum við með að taka 12 inn á hvort námskeið. Rannís hefur styrkt félagið fyrir námskeiði og aðbúnaði í haglagreinum fyrir unglinga um 250.000. Þessi námskeið verða auglýst bráðlega.
Þetta er því að verða að veruleika, að við séum að koma af stað ungmennastarfi hér í sýslunni og verður gaman að hitta krakka á næstu æfingum, en þær verða auglýstar og sendar á þá sem hafa skráð sig í ungmennastarfið.
Hér má sá ákvörðun um styrkbeiðnir okkar hjá sveitarfélögunum:
15.Skotfélagið Skyttur; ósk um styrk v. æskulýðsstarfs
2203002
Á 292. fundi sveitarstjórnar var erindinu vísað til umsagnar og álitsgjafar í Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd. Nefndin hefur nú fjallað um erindið og samþykkti eftirfarandi bókun í fundargerð nefndarinnar:
Magnús Ragnarsson formaður skotfélagsins Skyttur mætti í símaspjall og fór hann yfir starf félagsins, uppbyggingu, stefnu og uppbyggingu í æskulýðsmálum. Einnig að félagið væri að skoða möguleika á húsnæði þar sem það getur verið með sinn búnað á staðnum því ekki væri auðvelt að vera með búnaðinn sem þessari íþrótt fylgir á miklu flakki. Nefndarmenn tóku vel í erindið frá skotfélaginu og fögnuðu því að möguleikar barna og ungmenna í sveitarfélaginu á að stunda íþróttir myndu aukast með tilkomu þessarar nýju deildar innan skotfélagsins. Þar sem um nýja deild innan skotfélagsins og um talsverðan startkostnað er að ræða telur nefndin rétt að styrkja félagið vegna stofnkostnaðar en teldi eðlilegt að félagið myndi sjálft standa straum af þjálfarakostnaði með æfingagjöldum. Einnig ræddu nefndarmenn hugmyndir að húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem gætu nýst undir starfsemina. Voru félagsheimilin, sögusetrið og fleiri staðir nefndir.
Sveitarstjórn samþykkir að styrkja Skotfélagið Skyttur um 500.000 krónur, til uppbyggingar æskulýðsstarfs í skotíþróttagreinum. Einnig er sveitarfélagið tilbúið að veita gjaldfrjálsa aðstöðu í húsnæði á vegum sveitarfélagsins.
Samþykkt samhljóða
Einnig fundargerð Rangárþings Ytra:
Heilsu,- íþrótta- og tómstundanefnd - 18
2203007F
Vísað er til umfjöllunar um einstaka liði en fundargerðin að öðru leyti til kynningar.
-
2.1 2203007 Ósk um styrk til æskulýðsstarfs í skotgreinum
Heilsu,- íþrótta- og tómstundanefnd - 18 Nefndin leggur til að Skotfélagið Skytturnar hljóti styrk að upphæð 400.000 kr og aðstöðu i húsnæði sveitarfélagsins endurgjaldslaust í samráði við Heilsu-, íþrótta og tómstundafulltrúa
-
Samþykkt samhljóða. Bókun fundar Tillaga um að styrkja Skotfélagið Skytturnar um 400 þúsund kr til uppbyggingar á æskulýðsstarfi félagsins á árinu 2022 og kostnaður færist á Æskulýðs- og íþróttamál. Jafnframt fái félagið aðstöðu í húsnæði sveitarfélagsins endurgjaldslaust. Vegna þessa er gerð tillaga til sveitarstjórnar um viðauka 1 við fjárhagsáætlun ársins 2022. Viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé.
Samþykkt samhljóða
Við erum því afar spennt fyrir framhaldinu hjá okkur og gaman að sjá að við séum að fá styrki fyir starfinu og við getum byrjað að koma okkur upp æfingabúnaði fyrir starfið. Meðfylgjandi eru myndir úr starfinu.