Gleðilegt nýtt ár!
Við sendum félagsmönnum, iðkendum og öllu skotíþróttafólki hugheilar nýárskveðjur og þökkum fyrir það gamla.
Síðastliðið ár er eitt það viðburðaríkasta í sögu félagsins frá stofnun þess í lok árs 2008 og horfum við björtum augum til ársins 2023 að það verði enn viðburðarríkara.
Á þessu ári hófust loksins framkvæmdir við riffillhús sem hefur lengi verið í burðarliðnum en sökkull hefur verið steyptur fyrir 72 fermetra hús sem mun geta rúmað 10 brautir fyrir riffillvöll sem býður uppá allt að 500 metra skotfæri. Okkar markmið er að klára plötuna á árinu þannig að hægt sé að koma fyrir borðum og liggja á henni fyrir sumarið.
Mikilvægur áfangi náðist á leirdúfuvellinum þegar keyptar voru nýjar Promatic Skeet pro leirdúfuvélar í húsin en þær gömlu voru úr sér gengnar. Þetta var stór fjárfesting fyrir félagið en nauðsynleg til að halda úti skeet velli. Við erum mjög ánægð með þessar leirdúfuvélar og vonum að félagsmenn geti nýtt þær til æfinga og keppni.
Það sem stóð upp úr á árinu var að félagið hóf barna og unglingastarf í skotíþróttum. Starfið hófst í vor með kynningu í sýslunni sem við héldum að Laugalandi í Holtum. Aðsóknin var langt fram úr björtustu vonum. Í framhaldi héldum við haglabyssunámskeið fyrir unglinga í haust og gekk það mjög vel.
Við byrjuðum svo með skipulagðar æfingar fyrir börn á aldrinum 6-20 ára á haustönninni einu sinni í viku til skiptis á Hellu og á Hvolsvelli og komust ekki allir að sem vildu. Við höfum verið með þrjá þjálfara og einn aðstoðaraþjálfara sem hafa komið að starfinu.
Félagið hefur fjárfest í góðum æfingabúnaði, m.a. 6 laserrifflum og eru 4 stk af þeim komin til landsins og erum við byrjuð að nota þá við æfingar. Félagið tók einnig í notkun Sportabler skráningarkerfið á árinu og hefur það reynst okkur mjög vel.
Af keppnisárangri á árinu þá er þetta mikið afreksár hjá félaginu. Tveir keppendur í unglingaflokki kepptu á nokkrum mótum á árinu með góðum árangri. Fyrst ber að nefna Óðinn Magnússon sem keppti í loftskammbyssu og 50m liggjandi riffli. Hann vann nokkur gull og er Íslandsmeistari í báðum greinum í drengjaflokki ásamt því að setja Íslandsmet í 50m liggjandi riffli í drengjaflokki.
Bríet Berndssen keppti í skeet með glæsilegum árangri og hreppti þar gullið.
Í fullorðinsflokki keppti Magnús Ragnarsson í loftskammbyssu, staðlaðri skammbyssu og sport skammbyssu með góðum árangri. Hann vann meðal annars gull á landsmóti í loftskammbyssu.
Á nýju ári erum við svo að fá nýtt æfingahúsnæði fyrir loftgreinar og ungmennastarf. Æfingasalurinn er á Hvolsvelli og erum við virkilega spennt fyrir því. Það mun opna nýjan kafla í sögu félagsins og bjóða upp á meiri breidd í íþróttastarfinu en þó aðallega í barna og unglingastarfi en einnig afreksstarfi í lofgreinum. Við munum auglýsa þetta betur þegar nær dregur.
Við viljum þakka félagsmönnum og öllum þeim sem komu að starfsseminni á einn eða annan hátt á liðnu ári. Þar má helst nefna Sveitarfélögin, Skotfélag Kópavogs, Skotfélag Reykjavíkur, styrktaraðilar sem gerður okkur kleyft að fara í öll þessi verk, iðkenndur og foreldrar iðkenda.