Undirbúningsfundur 21.11.08

Sælir félagar

Eins og þið vitið var undirbúningsfundur haldinn þann 21. Nóvember síðastliðinn sem 16 manns mættu á og gekk fundurinn mjög vel. Höfðum við Árni Páll og Þórarinn komið saman þann 15. nóvember til að undirbúa þann fund.

Mikill hugur var í mönnum á síðasta fundi og greinilegt að mikill grundvöllur er fyrir því að koma svoleiðis félagi á laggirnar. Á fundinn mættu Jóhann Norðfjörð (Bóbó) byssusmiður og formaður Skotfélags Suðurlands og svo Steinar Einarsson frá skotfélagi Kópavogs og var mjög gott að fá reynda menn á fundinn og þökkum við þeim fyrir.

Á fundinum kom fram að mikill áhugi var hjá öllum að koma skotfélagi á fót. Reifað var um keppnisgreinar og var rætt um að það væri sennilega hagkvæmast að koma upp Trap velli til að byrja með þar sem það þyrfti aðeins einn kastara í þannig völl. (Trap er útgáfa af leirdúfuskotfimi). Menn voru sammála um að félagar hefðu kost á því að keppa í mismunandi greinum og var rætt um lásboga í því samhengi. Var tekið jákvætt í það en sú íþrótt er ekki stunduð á Íslandi þótt hún sé alþjóðlega viðurkennd.

Mikið var rætt um skotsvæði og það væri fyrsta verk félagsins að finna hentugt svæði. Kom fram á fundinum að Örn, sveitastjóri í Rangárþingi Ytra væri mjög jákvæður gagnvart því að finna skotsvæði. Árni Páll hefur rætt við Örn um það. Reynir taldi möguleika á svæði á landsvæði Landgræðslu ríkisins. Við austann menn ræddum um að hefja viðræður við sveitastjórn Rangárþings Eystra.

Á fundinum var rætt um það að mikilvægt væri að svona félag væri til að hafa gaman af en bæði Bóbó og Steinar deildu reynslu sinna af stærri félögum þar sem illindi eða leiðindi hafi skapast og var lögð mikið áhersla á það á fundinum að búa svo um þetta nýja félag að það yrði gaman að því og stefnt að því að ekki verði einhver leiðindi.

Bóbó nefndi að mikilvægt væri að menn myndu bera virðingu fyrir öllum greinum og að menn myndu virða aðra óháð því hvaða búnað menn notuðu. Það hefði verið lenska hjá skotmönnum að gera lítið úr þeim sem eiga ekki flottustu græjur en það gengi ekki.

Ég ræddi um lög sem þyrfti að semja fyrir félagið og tók dæmi úr lögum annara félaga en þau eru mjög ólík. Menn voru sammála að þó að þetta væri skotíþróttafélag þá væri þetta ekki síður ætlað veiðimönnum og ætti eitt af markmiðum félagsins að vera að bæta veiðimenningu en þesskonar ákvæði er að finna í skotfélaginu Ósmann.

Varðandi lagasmíð þá var bent á það að nauðsynlegt væri að hafa ákvæði í lögum sem heimilaði brottrekstur félagsmanna en sum félög hafa brennt sig á því að hafa ekki svoleiðis. Dæmi eru um einstaklinga sem fara á milli félaga og hafa gert meira ógagn en gagn og sé því æskilegt að geta haft stjórn á því.

Núna þarf að koma af stað nafnasamkeppni fyrir félagið. Félagið mun spanna Rangárþing Ytra og Eystra eða Rangárvallasýslu. Þannig væri gott að menn myndu senda inn tillögur sem yrði svo kosið um á næsta fundi.

Lagasmíðinni verður vonandi lokið á næsta fundi og verður vonandi búið að dreifa drögum að þeim á ykkur til að fara yfir.

Árni Páll er nýlega búin að fara í landkönnunarferð og nefndi hann staðin Vakalá vera mjög heppilegan, Eftir á að ræða við landeigendur um það. Reynir ætlaði að ræða við Landgræðsluna um landsvæði. Við Valur ætluðum að ræða við sveitastjórnina hérna austanmeginn.

Varðandi reglur um skotsvæði þá hafa ekki gilt neinar reglur varðandi fjarlægðir eða annað, heldur virðist það byggjast á mati marra aðila sýnist mér.

Núna þurfum við að finna tímasetningu fyrir næsta fund og stefna að því að hafa hann sem allra fyrst.

Verið svo ófeimnir við að skrifa og deila skoðunum á þessum vettvangi

Kv.

Magnús Ragnarssson

Efnisorð: